Kristín Snæfells Arnþórsdóttir, sem hafði frumkvæði að stofnun Dyngjunnar árið 1987, er látin eftir báráttu við krabbamein. Kristínar er víða minnst sem frumkvöðuls og eldhuga en hún átti sér þann draum að setja á fót heimili þar sem konu fengju svigrúm til að fóta sig og móta sér nýjan lífstíl að áfengis- og vímuefnameðferð lokinni.

Kristín “vissi af eigin raun hvað það skipti miklu máli að fá svigrúm og tíma til að átta sig á nýjum lífsstíl. Hún fékk nokkrar konur til liðs við sig og hafði frumkvæði að stofnun líknarfélags árið 1987 sem var ætlað að vinna að verkinu. Saman kynntu konurnar hugðarefni sitt á fjölmennum fundum og í fjölmiðlum: þennan nýja stað ætti að reka sem heimili og konurnar skyldu stunda vinnu og greiða fyrir húsnæði og fæði.” (úr bókinni Að breyta því sem ég get breytt eftir Eddu Vilborgu Guðmundsdóttur, fyrrverandi forstöðukonu Dyngjunnar)

Árið 2003 gaf Kristín út sjálfsævisögu sína Sporin í sandinum, þar sem hún sagði frá lífsbaráttu sinni og sigrum. Hana má nálgast meðal annar sem hljóðbók hér.

Starfsfólk og stjórnarmenn líknarfélags Dyngjunnar minnast Krístínar með hlýhug og þakka frumkvæði hennar og röggsemi við stofnun heimilisins.