Starfið

Dyngjan er áfangaheimili fyrir konur, skipulagt að þörfum þeirra sem eru að koma úr áfengis og vímuefnameðferð, þeim veittur allur stuðningur til að takast á við heilbrigt líferni. Það tók til starfa 9.apríl 1988 og hefur starfað óslitið síðan.

Fjórtán konur geta dvalið hverju sinni á heimilinu og ráðgjafar meðferðarstaðanna sækja um dvöl fyrir konurnar

Forstöðukona Dyngjunnar er eini fasti starfsmaðurinn en ráðgjafar leysa af á bakvöktum um helgar.

Börn kvennanna eru alltaf velkomin í heimsókn til mæðra sinna. Aðrar heimsóknir eru um helgar milli kl. 14 – 18.

Ferill uppbyggingar  og breytinga tekur við eftir áfengis og vímuefnameðferð og koma konurnar að eigin ósk á áfangaheimilið með það að markmiði að geta einbeitt sér að breyttum lifnaðarháttum. Lagt er upp með að verja minnst þremur mánuðum á heimilinu.  Reglulega er fylgst með bata hverrar konu og hvert hún stefnir að lokinni dvöl á Dyngjunni.

Aðstæður kvennanna sem koma á heimilið eru mismunandi, en við það að veita þeim heimilisöryggi, friðhelgi fyrir utanaðkomandi áreiti og stuðning við breytt líferni geta þær eignast von og trú til að takast á við önnur vandamál sem fylgja fyrra líferni. Auk stuðnings og leiðsagnar starfsmanna fá þær stuðning og félagsskap af hvor annarri sem getur verið dýrmætt í batagöngunni.

Konurnar þurfa að hlíta reglum heimilisins sem settar eru í þeim tilgangi að styðja þær til batans. Þrír húsfundir eru á viku með forstöðukonu og leiðir ráðgjafi frá SÁÁ einn þeirra.

Konurnar sjá sjálfar um öll þrif og eldamennsku á heimilinu og er skipt um verkefni vikulega.

Greitt er mánaðarlegt vistgjald.

Konurnar sem hafa nýtt sér þetta úrræði frá upphafi eru orðnar 1192 talsins auk fjöldi barna sem hafa fylgt mæðrum sínum

Samstarfsaðilar Dyngjunnar eru t.a.m SÁÁ, Hlaðgerðarkot, Landspítalinn, Krýsuvíkursamtökin, Grettistak (samstarfsverkefni TR og Velferðarsviðs Reykjavíkurbogar), Virk, Hvítabandið, Bjarkarhlíð, Velferðarráðuneytið og Reykjavíkurborg.